Gaufað við framkvæmdir við Höfðabakkann - enn eru klukkuljós en ekki snjallljós
Það fer ekki fram hjá neinum íbúum í Grafarvogi hve mikill hægagangur er á framkvæmdunum við Höfðabakkann. Þegar við vorum þarna á ferð í dag voru þrír menn með meitla og hamra að vinna við verkið af hálfu fyrirtækisins Kröflu sem annast þessar framkvæmdir - sem hófust um mitt sumar.
Fram kemur á Borgarvefsjánni að verkfræðistofan VSÓ annist eftirlit með verkinu en hinir raunverulegu eftirlistaðilar eru auðvitað þúsundir íbúa í Grafarvogi sem aka þarna um daglega og eru langflestir á þeirri skoðun að gaufað sé við verkið - og hafi verið svo frá upphafi.
Verkið gengur út á að setja upp snjallljós við fimm gatnamót Höfðabakka en fréttir af verkinu hafa gengið að mestu út á að verið sé að þrengja að allri umferð með því að lengja og breikka umferðareyjar til að auka öryggi gangandi og hjólandi. Finnst mörgum sem það sé á kostnað öryggis þeirra sem fara um akandi, þ.e. að hættan á árekstrum og bílslysum aukist; svo ekki sé nú rætt um umferðaröngþveitið sem búið er að skapa við gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls. Sem auðvitað nær ekki nokkurri átt.
Það er svo sem annað mál - eða önnur Ella, eins og sagt er - en hitt blasir við að hraði framkvæmda er hægur og að mati flestra Grafarvogsbúa er þetta ekkert annað en gauf. - JGH

Hér lokuðu starfsmenn hægri akreininni niður Höfðabakkann í dag þar sem verið var að vinna með slaghamri og meitli í kringum ein götuljósin. Sjálfsagt að huga að öryggi þeirra sem vinna við verkið - en einhvern veginn vinnst verkið mjög hægt.

Það blasir við öllum að verkið gengur hægt og nánast alls staðar virðist langt í land með að ganga frá.

Er boðlegt að vera svona lengi með verk sem er við eina helstu umferðargötu á höfuðborgarsvæðinu; Höfðabakkann?

Hér er ekki unnið dag og nótt við að klára áður en snjóþyngstu mánuðirnar ganga í garð.

Nýju, háu staurarnir eru fyrir snjallljósin. Ennþá er ekkert að gerast varðandi þau. Staurarnir fyrir klukkuljósin eru að vísu komnir upp úr jörðinni en þarna eru ennþá tímastillt klukkuljós og miðað við framkvæmdahraða virðist langt í land með að „ljósin tali saman“, þ.e. snjallljósin.

Gangstéttin meðfram Höfðabakkanum, gegnt veitingahúsinu Silla kokki. Hér er henni einfaldlega lokað fyrir gangandi með þvergirðingu. Eykur auðvitað hættuna á að fólk smokri sér framhjá með því að fara út á veginn.

Þarna má sjá tvo menn af þremur sem voru að vinna við frágang í kringum ljósin við gatnamót Dvergshöfða og Höfðabakka. Vel á minnst; ef þarna verða beygjuljós; hvers vegna er þá ekki beygjuinnskotið við umferðareyjuna lengt til muna svo þeir sem beygja þarna stöðvi ekki flæði umferðarinnar niður Höfðabakkann og í Grafarvoginn á meðan.

Þessir þrír unnu við verkið í dag þegar við áttum leið um til að kanna gang framkvæmdanna. Grafarvogsbúum finnst vanta að borgin bretti upp ermarnar og setji kraft í verkið - hvað þá þegar snjóþyngstu mánuðir vetrarins eru að renna upp. Byrjað var á þessum framkvæmdum um mitt sumar.

