Gamla, góða Ártúnsbrekkan árið 1950
ÁRTÚNSBREKKAN UM 1950. Þessa skemmtilegu mynd af Ártúnsbrekkunni birtir Sverrir Þórólfsson á Facebook. Myndin er tekin í kringum árið 1950 og alvöru drossía á leiðinni upp brekkuna. Auðvitað var vinstri umferð á þessum tíma.
Svei mér þá ef bragginn á vinstri hönd stendur ekki ennþá. Þarna glittir í ósa Elliðaár áður en ákveðið var að fylla upp í þá og búa til landfyllingu sem kölluð er Geirsnef og er notað sem sleppisvæði fyrir hundaeigendur.
Í athugasemdum á FB segir að vegurinn hafi greinst neðar í brekkunni - ca. 150 metrum - og að leiðin upp í Árbæ og austur fyrir fjall hafi legið þar um.
Það merkir að drossían á myndinni er á leiðinni upp í Mosfellsbæ eða þaðan af lengra eftir Vesturlandsvegi. Skemmtileg mynd í alla staði.
Látum svo eina loftmynd af svæði upphafsmyndarinnar fylgja með - en hún er sögð frá árinu 1954 og þar má sjá að byggð hefur breiðst út og íbúðum fjölgað talsvert í millitíðinni.
Ósar Elliðaár sjást enn betur á þeirri mynd. - JGH

Loftmynd af hluta Reykjavík árið 1954 þar sem sjá má þónokkur býli við Bústaðaveginn og eins eru óskar Elliðaár athyglisverðir.