Kóngar, drottningar, biskupar, riddarar og peð fara á stjá - skákin byrjar aftur 4. september
SKÁK OG MÁT! Skákáhugi ungmenna í Grafarvogi er löngu þekktur og rómaður. Núna þegar skólabjallan glymur eftir gott sumarfrí þá fara líka drottningar, kóngar, biskupar, riddarar og peð á stjá aftur á skákæfingum Fjölnis.
Fyrsta skákæfing vetrarins hjá Fjölni verður fimmtudaginn 4. september næstkomandi.
Æfingarnar verða að venju alla fimmtudaga í Rimaskóla frá kl. 16:30 - 18:15. Gengið er inn um íþróttahúsið.
Þetta eru líflegar æfingar með skákmóti, skákþjálfun fyrir byrjendur, skúffuköku og verðlaunahátíð í lok hverrar æfingar.
Að sögn Helga Árnasonar , formanns skákdeildar Fjölnis, er tilhlökkun í lofti og hann á von á góðri þátttöku í vetur. Æfingarnar séu ókeypis en æskilegt sé að þátttakendur kunni eitthvað fyrir sér í undirstöðuatriðum skáklistarinnar; eins og mannganginn og ef til vill aðeins meira.
Það er óhætt að taka undir að skákin sé skemmtileg hjá skákdeild Fjölnis. Skemmtunin byrjar um leið og ýtt verður á skákklukkurnar 4. sept og stendur svo fram í maí á næsta ári.
Þetta er lofsvert framtak hjá Fjölni. - JGH
Skákáhugi ungmenna í Grafarvogi er rómaður. Drottningar, kóngar, biskupar, riddarar og peð fara aftur á stjá í Rimaskóla þegar skákæfingar Fjölnis hefjast fimmtudaginn 4. sept. næstkomandi.
Á hvítum reitum og svörtum. Það er jafnan líf og fjör á skákæfingum Fjölnis. Skákin heillar og er góð hugarleikfimi.