Frétt Grafarvogs.net um bílakirkjugarðinn hefur haft áhrif - það er byrjað að grisja

12. ágúst 2025

GRISJUN HAFIN! Frétt Grafarvogs.net um bílakirkjugarðinn fyrir neðan bensínstöð N1 við Veghús hefur haft áhrif. Eigendur bílhræjanna eru byrjaðir að grisja. 


En betur má ef duga skal - enn standa þarna nokkur bílflök og það sem meira er; tjaldvagnar og fellihýsi hafa bæst við.


Þá hefur eigandi mikils dreka með stóra hestakerru í eftirdragi séð sér færi á að leggja þarna þegar rými hafði myndast við grisjun skrjóðanna sem hafa verið fjarlægðir. Og líkt og síðast er stórum flutningabíl lagt á svæðinu - þó ekki sá sami og um daginn.


Grafarvogur.net hefur verið í samskiptum við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að undanförnu út af frétt okkar og hyggst fylgja þessu máli eftir. 


Við sýnum hér nokkrar myndir frá því í kvöld þegar við renndum þarna við og tókum stöðuna - og berum hana saman við fyrri frétt okkar um málið.   - JGH

Þessir vinir eru þarna ennþá og sýna ekki á sér neitt fararsnið.

FARINN. Þessi eðalvagn er farinn en lúxuskerran ennþá þarna - en búið að fjarlæga draslið á kerrunni sem leyndist undir teppinu. Það var þeirrar gerðar að því var ekki sópað undir teppið.

DEKKIN FARIN. Þessi dekk hafa verið fjarlæð.

FARNAR. Þessar tvær eðaldrossíur er farnar. En þá myndaðist rými til að lauma fellihýsi inn á svæðið...

...þessu fellihýsi hérna.

ENNÞÁ. Þessi tvenna er þarna ennþá!

VIÐBÓT. Kerran í miðjunni og tjaldvagninn til hægri hafa bæst við á svæðinu.

NÝTTI SÉR RÝMIÐ. Eigandi þessa dreka (á númerum) með hestakerruna í eftirdragi nýtti sér í kvöld rýmið á svæðinu sem myndaðist við grisjun skrjóðanna.

TRUKKUR. Þarna er líka nýr, stór og stæðilegur trukkur - en hann er á númerum. Raunar er þetta ekki sami trukkurinn og var þarna síðast.