Fljúgandi góð flugeldasala hjá Landsbjörgu - útlit fyrir gott „skotveður“ í kvöld
Það var mikill erill í flugeldasölunni hjá Hjálparsveit skáta og Landsbjörgu í Spönginni í hádeginu í dag, gamlársdag, þegar Grafarvogur.net var þar á ferð. Góð sala og hjálparsveitirnar finna fyrir góðum stuðningi Grafarvogsbúa. Útlit er fyrir gott veður í kvöld til að skjóta upp flugeldum og þeysa tertunum í gang - sannkallað „skotveður“.
„Það er búið að vera mjög góða sala,“ segja þau Ísabella Ingadóttir og Daníel Hafþór Ómarsson, verslunarstjórar í flugeldasölunni í Spönginni. Þau hafa haldið utan um söluna í þessum litla söluskála síðustu fjögur árin.
Þau segja að salan sé svipað og undanfarin ár. „Það kom góður kraftur í söluna sl. sunnudag, 28. des., og síðan hefur hefur verið góður gangur í þessu og 30. des. er ávallt mikill söludagur og svo ekki síst sjálfur gamlársdagur - þá er ávallt mikil stemning í sölunni og augljós tilhlökkun og spenna fyrir kvöldinu.“
Raketturnar rjúka út og terturnar sömuleiðis - en þær eru af öllum stærðum og gerðum; sem og er verð þeirra mjög mismunandi. „Þá selst fjölskyldupakkinn mjög vel en hann inniheldur flugelda, tertur, blys og ýmist smádót.“
Þau segjast þakka Grafarvogsbúum fyrir stuðninginn; flugeldasalan sé helsta fjáröflunarleiðin og stuðningurinn sé ómetanlegur.
Svo er bara að ganga hægt um gleðinnar dyr í kvöld og fara varlega við skotpallana. - JGH

Flugeldasala Hjálparsveita skáta og Landsbjargar í Spönginni. Myndin tekin í hádeginu í dag, gamlársdag, og útlit fyrir gott veður í kvöld - sannkallað „skotveður“.

Ísabella Ingadóttir og Daníel Hafþór Ómarsson, verslunarstjórar flugeldasölu Hjálparsveita skáta og Landsbjargar í Spönginni.
