Ókeypis blóðsykurmælingar Lions - til að kanna hvort fólk sé með sykursýki 2

18. nóvember 2025

Það er fyllsta ástæað til að vekja athygli á ókeypis blóðsykurmælingum Lions-klúbbanna tveggja í Grafarvogi í anddyri Húsgagnahallarinnar að Bíldshöfða 20 nk.laugardag frá frá klukkan 11 til 16. 


Þetta verkefni er árlegt en það var Lionsklúbburinn Fjörgyn sem byrjaði á því árið 2012 en árið 2017 varð þetta samstarfsverkefni klúbbanna tveggja í Grafarvogi, Fjörgynjar og Foldar. Mælingarnar lágu niðri á covid-árunum.


Að sögn Guðmundar Helga Gunnarssonar hjá Lions-klúbbnum Fjörgyn þá hefur fjöldi fólks nýtt sér þessar ókeypis blóðsykurmælingar hjá klúbbunum og hvetur hann alla til að mæta og láta mæla blóðsykurinn - en gildi hans gefur til kynna hvort viðkomandi leynist með sykursýki 2.


„Á þessum árum hafa klúbbfélagar mælt blóðsykur í 5.455 einstaklingum sem skiptist þannig að 3.198 konur hafa fengið mælingu og 2.257 karlar. Þetta verkefni er mjög góð og öflug kynning fyrir Lions-hreyfinguna og veitir það okkur mikla ánægju að fá að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Guðmundur.

Félagar í Lions-klúbbunum tveimur í Grafarvogi hafa mælt blóðsykur hjá 5.455 einstaklingum og bjóða þetta árið upp á ókeypis mælingar í Húsgagnahöllinni á Bíldshöfða nk. laugardag á milli kl. 11 og 16.

Guðmundur bætir því við að nóvembermánuður sé tengdur vitund um sykursýki og varna gegn þeim sjúkdómi.


„Sykursýkisvarnir eru eitt af höfuðverkefnum Lions um allan heim en alþjóðlegi sykursýkisdagurinn er 14. nóvember ár hvert. Hér á landi munu Lionsklúbbar um allt land bjóða upp á blóðsykurmælingar í nóvember á sínum heimasvæðum,“ segir Guðmundur.  - JGH

Öflugar Foldakonur við blóðsykurmælingar í anddyri Húsgagnahallarinnar en Lionsklúbburinn Fjörgyn (Karlaklúbburinn) hóf þetta verkefni árið 2012 og frá árinu 2017 hefur þetta verið samstarfsverkefni beggja Lionsklúbbanna í Grafarvogi.