Enn magnast klúðrið - borgarráð veitti ekki leyfi til að taka beygjuvasana af
Enn magnast klúðrið þegar horft er til mjög svo umdeildra framkvæmda borgarinnar við gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls.
Í forstíðufrétt Morgunblaðsins í morgun (laugardag) segir að eingöngu hafi verið veitt leyfi til að skipta um umferðarljós en ekki hafi verið veitt leyfi fyrir öðrum framkvæmdum, til dæmis að taka mikilvæga beygjuvasa í burtu.
Í fréttinni segir ennfremur að framkvæmdirnar hafi hvorki verið samþykktar í borgarráði né hafi verið samþykkt að veita fjármuni til verkefnisins. Þá kemur fram að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði hafa óskað skýringa á því hvers vegna ekki var óskað nauðsynlegra heimilda áður en ráðist var í útboð verksins.

„Ég hef óskað eftir áliti borgarlögmanns á því hvort það sé ekki rétt sem ég tel, að skort hafi fjárheimildir til að fjarlægja þessi hægribeygjuframhjáhlaup á gatnamótunum. Það er ekkert í beiðninni sem kom til borgarráðs sem ber þess merki að fara hafi átt í þessa framkvæmd,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, í samtali við Morgunblaðið.
Hún segir að aðeins hafi verið gefin fjárheimild fyrir endurnýjun umferðarljósastýringa, en ekki breytingunni sem gerð var á gatnamótunum. - JGH

Bíleigendum hefur ekki verið skemmt yfir framkvæmdum borgarinnar við Höfðabakkann og þeim stórauknu umferðartöfum sem þær hafa leitt af sér. Núna er komið á daginn að aðeins var veitt leyfi til að skipta um umferðarljós - en hvorki veitt leyfi né fjármagn til annarra framkvæmda.