Flest slysin við Höfðabakkann í árekstrum bíla - þrengingarnar munu fjölga árekstrum

25. september 2025

Ólafur Guðmundsson, Grafarvogsbúi og einn þekktasti umferðarsérfræðingur landsins, segir í samtali við Grafarvog.net eitt slys í umferðinni sé einu slysi of mikið. „Við viljum ekki sjá nein meiðsli á fólki - hvort sem fólk er í bílum, á hjóli eða gangandi,“ segir hann og telur að mjög svo umtalaðar þrengingar við Höfðabakkann, sem ætlað er að minnka slysahættu gangandi og hjólandi, hafi því miður þveröfug áhrif og fjölgi árekstrum bíla en þar hefur slysahættan verið talsverð.


Þess utan sé umferð hjólandi og gangandi ekki í neinu hlutfalli við þá gífurlegu umferð bíla sem fer um Höfðabakkann og áherslan ætti því að vera að liðka til fyrir umferð bíla og auka öryggið þar.


„Meiðsli á fólki í umferðarslysum við Höfðabakkann síðustu tíu árin eru langflest vegna árekstra bíla,“ segir Ólafur og bætir við að

engin slys hafi orðið á óvörðum vegfarendum, þ.e. hjólandi og gangandi, við gatnamót Höfðabakka og Stórhöfða, eða við Bæjarháls og Höfðabakkabrú, sem réttlæti þessar þrengingar.


FRÓÐLEGT VIÐTAL VIÐ ÓLAF Í BÍTINU


„Það hefur - sem betur fer - ekki orðið eitt einasta slys á gangandi eða hjólandi í beygjuvösum sem verið er að leggja af og skapa núna þetta mikla umferðaröngþveiti sem íbúar í Garfarvogi, Breiðholti og ekki síst Árbæ hafa orðið vitni að,“ segir Ólafur. 


„Mesta slysahættan er auðvitað ef reglur eru ekki virtar og farið er yfir á rauðu. Það er hins vegar ekki mannvirkjunum að kenna.“


Mjög fróðlegt viðtal var við Ólaf í Bítinu á Bylgjunni í morgun vegna framkvæmdanna við Höfðabakkann. Hægt er að hlusta á það hér

Grafarvogur.net hefur fjallað um þessar framkvæmdir undanfarnar vikur og málið er orðið sjóðandi heitt hjá öllum fjölmiðlum og var t.d. mjög athyglisverð mynd af gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls á forsíðu Morgunblaðsins í morgun. 


Höfðabakkamálið er orðið sjóðandi heitt hjá fjölmiðlum. Hér er forsíðumynd Moggans í morgun.

Ólafur segir ennfremur að í ljósi alls þessa sé það öfugsnúið að koma núna með þrengingar sem auka slysahættuna þar sem hún er mest fyrir. 


„Markmiðið er auðvitað að líta á málið í heild,“ segir Ólafur. „Við viljum ekki sjá nein meiðsli á fólki - hvort sem fólk er í bílum, á hjóli eða gangandi. Það er nú þannig að hjólandi og gangandi líta oft svo á þeir eigi meiri rétt í umferðinni - en svo er ekki; þeir eru ekki rétthærri en þeir sem aka um á bílum eða eru í hópferðabílum - nema auðvitað við löglegar gangbrautir; svonefndar sebrabrautir en þær eru ekki í beygjuvösunum,“ segir Ólafur. - JGH

Hin margumtöluðu gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls.