Þeir eru í eldlínunni hjá Fjölni - Birgir Örn og Gunnar Már
Það eru auðvitað margir sem koma við sögu og leggja lóð á lóðarskálarnar þegar kemur að starfinu í knattspyrudeild Fjölnis. Margir í eldlínunni; leikmenn sem aðstandendur. En það mæðir óneitanlega talsvert á þessum tveimur sem Grafarvogur.net hitti á sigurleik kvennaliðs Fjölnis gegn KÞ á Grafarvogsvellinum á dögunum; þeim Birgi Örn Birgissyni, rekstrarstjóra knattspyrnudeildar Fjölnis, og Gunnari Má Guðmundssyni, þjálfara Fjölnis.

Birgir Örn Birgisson, rekstrarstjóri knattspyrnudeildar Fjölnis.
Að sögn Birgis Arnar hefur starfið gengið mjög vel í sumar og mikið um að vera í öllum flokkum, bæði hjá karla- og kvennaliðunum, og í kringum 900 manns sem iðka knattspyrnu með Fjölni.
RISASTÓR HÓPUR FRÁ FJÖLNI AÐ KEPPA Í BANDARÍKJUNUM
Og segja má að Fjölnir keppi á mörgum vígstöðvum. „Fjöldi stúlkna úr Fjölni tók þátt í Símamótinu í Kópavogi á dögunum og þá var hópur frá okkur á móti í Finnlandi í síðustu viku og þessa dagana er risastór hópur að keppa úti í Bandaríkjunum. Þetta er bara lítið en nærtækt dæmi um hvað mikið eru um að vera núna um hásumarið hjá okkur.“
Óhætt er að segja að Grafarvogsvöllurinn sé með besta móti, iðagrænn og fallegur. „Ég hef oft haft á orði að völlurinn sé ein af perlum Grafarvogs,“ segir Birgir Örn.
Meistaraflokkur karla í Fjölni er þessa stundina í 11. sæti í Lengjudeildinni og á í harðri fallbaráttu. Kvennaliðið er í 3ja sæti í 2. deild kvenna og á góða möguleika á að færast upp í Lengjudeild kvenna. - JGH

Fjör hjá Fjölnisstúlkum á Símamótinu. Það er gróskumikið starfið hjá Fjölni í öllum aldursflokkum.

Einbeittar á Símamóti.

Hart tekist á þó ungar séu að árum.