Skákbúðir Fjölnis á Snæfellsnesi - Helgi Ólafsson stórmeistari leiðbeindi
Skákdeild Fjölnis bauð upp á skákbúðir á Snæfellsnesi um helgina þar sem stórmeistarinn Helgi Ólafsson leiðbeindi krökkunum. Afar vel heppnað framtak en um 20 krakkar úr Fjölni tóku þátt og fóru í ferðina vestur.
Ekið var með rútu til Ólafsvíkur á laugardeginum þar sem krakkarnir tóku þátt í Minningarmóti Ottós og Gunnars. Um var að ræða glæsilegasta skákmót ársins þegar vinningar og veitingar eru annars vegar. Á þessu 100 manna móti stóðu krakkarnir sig mjög vel og unnu m.a. til þriggja eignabikara og 75.000 kr í verðlaunafé.

Ferðin hófst á laugardegi í Ólafsvík með þátttöku í Minningarmóti Ottós og Gunnars.
Eftir skákmótið, kökuhlaðborð og glæsilega pítsuveislu í Ólafsvík lá leiðin í Stykkishólm þar sem hópurinn fékk frábæra aðstöðu til gistingar og skákiðkunar í grunnskólanum. Fylgst var með Júróvision og veðurblíðunnar notið á leiksvæðinu við grunnskólann.
Á sunnudegi hófst dagskráin með skákennslu sem Helgi Ólafsson stórmeistari hafði með höndum. Þar nýttist tíminn vel og framlengja þurfti um 30 mínútur vegna áhuga krakkanna á skákþrautum. Þá tók við skákmót með 5 umferðum.
Í skákhléi var þátttakendum boðið upp á hamborgaramáltíð á veitingastaðnum Narfeyrarstofu.
Í lokin var frjáls tími í draumaveðri í fallegum bæ áður en lagt var af stað til baka suður til Reykjavíkur. Ógleymanleg ferð með skemmtilegum hópi skákkrakka. - JGH

Emilía Embla, sigurvegari í unglingaflokki í stigaflokki, með peningaverðlaunin.

Verðlaunahafar stúlkna í U16.

Verðlaunahafar strákar í U16.

Skákbúðirnar á Snæfellsnesi tókust í alla staði mjög vel.