Aldurinn er ekki óvinur okkar – heldur viðhorfið til hans
Hún er frumkvöðull sem tók þátt í því fyrir 35 árum að gera líkamsrækt að lífsvenju hjá fjölda Íslendinga. Stöðvarnar voru bylting. Núna tvinnar hún hreyfingu saman við styrktaræfingar, mataræði, slökun og heilbrigðan lífsstíl undir einu heiti; heilsurækt!
Og – hún er þekktur Grafarvogsbúi; við erum auðvitað að tala um Ágústu Johnson sem hefur búið hér í Grafarvoginum í tuttugu og fjögur ár ásamt fjölskyldu sinni. Eiginmaðurinn er Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður.
„Það er aldrei of seint að byrja,“ segir Ágústa í samtali við Grafarvog.net en hún er framkvæmdastjóri Hreyfingar.

Ágústa og Guðlaugur Þór hafa búið í nær aldarfjórðung í Grafarvogi. „Hér eru frábærar gönguleiðir.“
HEILSURÆKT OG LANGLÍFI
Nýjasti pistill hennar í Morgunblaðinu ber einmitt heitið Armbeygjur á 100 ára afmælinu? Skemmtileg fyrirsögn á fínum pistli um samspil heilsuræktar og langlífis.
„Gleymum ekki að aldurinn er ekki óvinur okkar – frekar viðhorfið sem við höfum til hans,“ segir Ágústa. „Það besta er að við höfum sjálf fjölmargt um það að segja hvort okkur beri gæfa til að viðhalda orku okkar og lífsþrótti á síðari hluta ævinnar.“
Hún segir að styrktar- og jafnvægisæfingar hafi mikil áhrif, jafnvel hjá einstaklingum yfir 75 ára. „Það er skynsamlegt að leita ráðlegginga hjá fagfólki og fá æfingaáætlun sem er sérsniðin að getu og þörfum hvers og eins.“
LÍKAMINN HANNAÐUR TIL AÐ HREYFA SIG
Að sögn Ágústu er líkaminn hannaður til að hreyfa sig. „En hvað gerum við flest?“ spyr hún, „Jú, sitjum stóran hluta dags við tölvu, í bíl eða í sófanum. Með reglulegri hreyfingu eykst hins vegar liðleiki, jafnvægi og styrkur sem allt stuðlar að því að lifa síðara æviskeiðið hraustari, hressari og síður án meiðsla.“
GRAFARVOGSBÚI Í ALDARFJÓRÐUNG
Ágústa hefur búið í Grafarvogi í nær aldarfjórðung og hvetur alla til að nýta sér hinar fjölmörgu góðu gönguleiðir í hverfinu. „Daglegar gönguferðir eru frábær heilsubót, hressandi og eflandi, svo ekki sé minnst á hve einfalt það er að drífa sig út að ganga. Það er um að gera að láta veðrið ekkert trufla sig, bara klæða sig eftir því hvernig viðrar. Þeir sem nenna ekki að fara út í rok og rigningu eiga alltaf skjól inni á líkamsræktarstöðvunum; þar er hægt að gleyma sér á brettinu eða gleyma sér í afþreyingarkerfinu.“

Fjölskylduhundurinn Máni á kunnum slóðum, fyrir botni Grafarvogs. Ágústa bendir á að fyrir botni Grafarvogs séu minjar sem séu friðaðar. „Það verður að varðveita þessa sögu Grafarvogs.“
FJÖLSKYLDUHUNDURINN MÁNI
Sjálf segist Ágúst fara í gönguferðir á hverjum degi og hún sé sjaldnast ein á ferð, fjölskylduhundurinn Máni sé jafnan með í för; fimm ára gamall Golden Retriever-rakki sem auðvitað þarf sína hreyfingu til að vera í góðu formi. Ekkert síður en við mannfólkið!
„Hann fær góða hreyfingu, nokkrar gönguferðir á dag þar sem fjölskyldan er býsna dugleg að viðra kappann. Þegar ég kem svo heim úr vinnu tek ég hann með mér í góða gönguferð, svona frá 30 mínútum upp í klukkutíma og jafnvel lengur. Fer oftast einhvern hring í hverfinu – til dæmis í kringum voginn en sú leið er mikil náttúruperla. Sömuleiðis er stígurinn meðfram sjónum í Hamrahverfi mjög falleg leið með útsýni yfir sundin blá.“
Ágústa bendir á að fyrir botni Grafarvogs séu minjar sem séu friðaðar. „Það verður að varðveita þessa sögu Grafarvogs.“
STYKRTARÞJÁLFUN TROMPIÐ
Þótt daglegar gönguferðir séu mikilvæg hreyfing og allra meina bót, hressi, kæti og bæti, þá segir Ágústa að þar með sé björninn ekki unninn. Styrktarþjálfun sé öllum nauðsynleg. „Hún er trompið að mínu mati og ég tel nauðsynlegt að lyfta lóðum, helst í hverri viku alla ævi.“
Hún segir að ótal rannsóknir hafi leitt í ljós að styrktarþjálfun sé mikilvægur lykill að heilbrigðari æviárum og langlífi. „Sjálfri finnst mér það stórgóð blanda að ganga og lyfta, hentar afar vel a.m.k. fyrir hundaeigendur. Ég reyni að ganga 10-15.000 skref á dag og lyfta tvisvar til þrisvar í viku.“
- En eru lóðin fyrir fyrir alla og líka á efri árunum?
„Já, ég tel svo vera. Og ég er ekki ein um þá skoðun því heilsusérfræðingar um allan heim hafa sammælst um að styrktarþjálfun sé undirstaða heilbrigðrar öldrunar og auki beinþéttni, bæti efnaskipti og viðhaldi hreyfigetu sem skipti sköpum fyrir lífsgæði á efri árum.“
LÓÐIN VINNA GEGN VÖÐVATAPI
- En hvað með þá skoðun að gott sé að „hlífa“ sér við álagi með aldrinum?
„Ég held að það geti gert illt verra. Talið er að ein helsta ástæðan fyrir meiðslum á efri árum sé hreyfingarleysi og skortur á styrktarþjálfun. Það er nauðsynlegt að virkja líkamann með markvissri hreyfingu og forðast kyrrsetu að mestu.“
Hún segir að vöðvatap sé eitt af því sem gerist með aldrinum. „Það er eitt stærsta vandamálið sem fylgir hækkandi aldri. Þá rýrna vöðvar og fyrir vikið hættir okkur til að bæta á okkur aukinni líkamsfitu en ekki öfugt.“

„Ég hvet fólk eindregið til að taka sér ekki hlé frá ræktinni á sumrin heldur að bæta hjólreiðum, fjallgöngum, golfi og fleiru frekar við æfingarnar og útiveruna á sumrin.“
STÆRRA MITTISMÁL ER EKKERT LÖGMÁL
„Minni vöðvamassi eykur þess utan hættuna á beinbrotum, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum og jafnvel heilabilun. Stærra mittismál með hækkandi aldri er alls ekkert lögmál ef markvisst er hugað að því að viðhalda vöðvamassa líkamans og vanda valið í mat og drykk. Þess vegna segi ég: Það er til mikils að vinna að taka reglulega – og rækilega – í lóðin.“
- En nú er sumarið að nálgast og þá breytist rútínan hjá mörgum og margir taka sér hlé!?
„Ég hvet fólk eindregið til að taka sér ekki hlé frá ræktinni á sumrin heldur bæta hjólreiðum, fjallgöngum, golfi og fleiru frekar við æfingarnar og útiveruna á sumrin.
Mitt mottó er að hætta aldrei að æfa og missa ekki niður vikur án þess að lyfta lóðum. Þannig heldur maður sér alltaf við efnið og rútínuna. Það kannast flestir við það hve erfitt er að byrja æfingar aftur eftir hlé. Pásurnar geta nefnilega orðið að mánuðum og jafnvel árum.“
STAÐFESTA SKIPTIR MÁLI
Og Ágústa segir með áherslu í lokin: „Viltu geisla af orku og heilbrigði? Þá er bara eitt ráð og það er staðfesta. Að stunda heilsuræktina í hverri viku allt árið, alltaf!“ - JGH/Svava