Vel kæst skötuveisla Fjölnismanna í Gufunesi í kvöld - nýr veislusalur í startholunum
Sterk var hún en málningin flagnaði samt ekki af veggjum í Gufunesinu í kvöld í vel kæstri skötuveislu hjá Knattspyrnudeild Fjölnis þar sem margir litu við og fengu sér skötu eða saltfisk - og auðvitað var allt meðlæti fyrsta flokks. Kartöflur, rófustappa og hamsar, svo eitthvað sé nefnt. Nammi, namm - að minnsta kosti hjá þeim sem mættu í skötuveisluna.
Það var Knattspyrnudeild Fjölnis sem stóð að veislunni en þeir sem sáu um matseldina hafa mikla og góða reynslu í eldhúsinu. Þetta voru þeir Benedikt Jónsson, Þórir Jóhannsson og Karl Emil Pálmason. Reynsluboltar, snaggaralegir og skemmtilegir kokkar.
Það sem meira er; þeir stefna á að opna nýjan veitingastað, SKÁLANN, upp úr miðjum janúar í þessu ágæta húsnæði í Gufunesi þar sem áður var lengi vel mötuneyti gömlu Áburðarverksmiðjunnar.

„Ég hef aldrei eldað eins sterka skötu,“ segir einn þremenninganna, Benedikt Jónsson. En þeir félagar ætla að opna nýjan matsal sem verður mötuneyti í hádeginu en líka hægt að leigja salinn fyrir veislur, bæði með og án veitinga. Góð búbót það fyrir Grafarvogsbúa.
HÆGT AÐ PANTA SALINN FYRIR VEISLUR
„Við verðum hér með mötuneyti í hádeginu alla daga fyrir gesti og gangandi - og þá fjölmörgu sem vinna hér í nágrenninu - og svo verður hægt að panta salinn fyrir veislur; leigja hann bæði með eða án veitinga. Hér er mjög góð aðstaða, stórt og fínt eldhús - og næg bílastæði.
Fjölnismenn höfðu samband við okkur og við vorum á báðum áttum enda ekki alveg tilbúnir. En það var ákveðið að kýla á þetta. Fjölnismenn komu með hráefnið til okkar í dag, vel kæsta skötu, kveikt var undir pottunum, flikkað upp á salinn til bráðabirgða og allt sett í gang. Fyrstu gestirnir mættu klukkan átján og þetta hefur heppnast mjög vel. Allir ánægðir og í jólaskapi. Fyrsta veislan, fyrsta „giggið“ hjá okkur en samt allt ekki tilbúið - er þetta ekki bara íslenska leiðin sem hefur gagnast oft svo vel?,“ segja þessir hressu kokkar.

Séð yfir hluta salarins og rammíslensk hátíðarfæða á borðum; kæst skata.
ALDREI ELDAÐ EINS STERKA SKÖTU
Þeir stefna á að opna nýja veitingastaðinn, Skálann, upp úr miðjum janúar, eins og fyrr segir. Stenst það? Mjög líklega. En Þórir Jóhannsson vill hins vegar orða það aðeins öðruvísi. „Það eru svo sem komnar dagsetningar hjá okkur en ég segi bara: Við opnum þegar við erum tilbúnir.“
En hvað með skötuna? „Þeir komu með hana Fjölnismenn í dag og ég hef aldrei eldað eins sterka skötu,“ segir Benedikt Jónsson.
Svo sannarlega stemning í vel kæstri skötuveislu Fjölnismanna í Gufunesi í kvöld í stórgóðum matsal. Það tekur einhverja daga að ræsta út - en hvað er það þegar fullorðinsmatur er borinn fram; alvöru skata. - JGH

Vel mætt og létt yfir mannskapnum í skötuveislu Fjölnismanna í Gufunesi í kvöld - og í góðum veislusal sem tekinn verður formlega í gagnið upp úr miðjum janúar næstkomandi.

Reynsluboltar þegar kemur að matseld. Frá vinstri; Karl Emil Pálsson, Benedikt Jónsson og Þórir Jóhannsson.

Þessir öflugu Fjölnismenn stóðu vaktina við innganginn þegar okkur bar að garði. Ingvi Þór Marínósson, starfsmaður Fjölnis, og Þorgeir Örn Tryggvason.

Vel kæst, eftirsótt, beint á diskinn og allir gátu fengið sér eins og þeir gátu í sig látið. Hér hefur gengið á birgðirnar.
