Húsasmiðjan í 20 ár í Grafarholti og Siggi Svavars hjá fyrirtækinu í 40 ár

16. maí 2025

HÁTÍÐ Í HÚSASMIÐJUNNI. Það er fjör á Fróni hjá Húsasmiðjunni í Grafarholti þessa helgina. Hátíðin hófst í morgun þegar um 150 iðnaðarmenn fögnuðu í versluninni en veislan verður enn fjörugri á morgun þegar allir geta litið við í hádeginu, frá 12 til 14, og fengið grillaðar pylsur og ís að vild í tilefni afmælisins.


Það sem meira er; verslunarstjórinn Sigurður Svavarsson hefur stýrt versluninni samfellt frá árinu 2012 eða í þrettán ár en þann 17. maí fyrir fjörutíu árum hóf hann störf hjá versluninni. Hann er núna sá starfsmaður Húsasmiðjunnar sem er með lengstan starfsaldur.


„Jón, ég veit þú trúir þessu ekki, 40 ár – og ég lít svona út,“ segir kappinn og að sjálfsögðu er hlegið dátt. Allir í hátíðaskapi. Lundin létt og Húsasmiðjan hefur greinilega farið vel með hann.

Auðvitað pylsur fyrir alla frá kl. 12 til 14 á morgun þar sem heimaliðið ætlar að grilla. „Húsa bestu,“ segir Sigurður verslunarstjóri.

Breytt Húsasmiðja og tuttugu ára afmælishátíð. En hvaða breytingar eru þetta?


„Um áramótin lokaði ég Blómavali í afskornum blómum en sumarblómin eru auðvitað áfram á sínum stað sem og moldin og annað sem til þarf. Og svo er ég er með tilbúna blómvendi í anddyrinu sem eru að gera sig.“


Sigurður segir að við þessa breytingu á Blómavali hafi orðið til meira rými fyrir aðrar deildir og svigrúm til uppfærslu á versluninni.


 „Við ákváðum að lækka rekkana í búðinni og opna hana þannig betur og gera hana enn glæsilegri. Mesta breytingin er þó í málningunni og verkfærunum. Málningardeildin er núna mun stærri og flottari – sem og verkfæradeildin. Báðar hafa fengið mun meira vægi hjá okkur og líta ansi vel út.“

Málningardeildin hefur fengið meira vægi sem og verkfæradeildin.

Hann segir að þjónustan við Grafarvogsbúa og aðra nágranna sé mögnuð og vel heppnuð. „Við finnum velvildina hjá öllum hér í hverfinu á hverjum degi og það gefur okkur mikið og hvetur okkur áfram.“


Hátíðin verður í hámarki á morgun. Pylsupartýið frá kl. 12 til 14 þar sem grillað verður ofan í gesti.


Bæjarins bestu? „Já, Húsa bestu þar sem heimaliðið grillar fyrir gesti. Ég gríp kannski eitthvað í tangirnar en verð hér annars á þönum í hátíðarskapi,“ segir Sigurður glettinn á svip.


Öflug tímamót. Helgin notuð til að fagna og fánar dregnir að húni. Til hamingju! - JGH

Húsasmiðjan 20 ára í Grafarholti og alvöru afmælishátíð á morgun. Íspinnarnir þegar á sínum stað.

Tímamótum fagnað og fánar dregnir að húni - eins og alla aðra daga.

Rekkar lækkaðir og verslunin öll bjartari fyrir vikið.