Pattstaðan á Alþingi. Vantar Kristrúnu viljann til að stíga inn og leysa vandann?

4. júlí 2025

HLUTHAFASPJALLIÐ. VIÐSKIPTI. Pattstaðan á Alþingi vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar um tvöföldun veiðigjalda hefur ekki farið fram hjá neinum og ræddum við Sigurður Már Jónsson þau mál lítillega í nýjasta hlaðvarpsþætti okkar, Hluthafaspjallinu, sem við tókum upp í gær og er að finna á Brotkast.is. 


Mikil kergja er hlaupin í þingmenn um þinglok og í dag birtust fréttir um að eitthvað sé að þokast í samkomulagsátt í þeim efnum. Það er vel. Sigurður Már Jónsson segir í spjalli okkar að vissulega komi það á óvart að forsætisráðherra hafi ekki stígið fram til þessa og reynt að höggvi á hnútinn fyrst hann telji að í óefni sé komið.


„Forsætisráðherra þarf að koma með lausn, hafa myndugleikann og tala beint við leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sérstaklega þegar samtöl á milli þingflokksfomanna ganga ekki upp,“ segir Sigurður Már.


STJÓRNARFORMAÐUR Í FYRIRTÆKI

Ég benti á að forsætisráðherra - og aðrir ráðherrar - væru ekki bara ráðherrar sinna flokka heldur þyrftu að virða skoðanir allra alþingismanna og tók dæmi af stjórnarformanni - og stjórnarmönnum - í fyrirtæki.


Stjórnarformaður er formaður allra hluthafa í fyrirtækinu og þarf að hafa hag þeirra allra í hug við ákvarðanir.


Góður stjórnarformaður reynir sömuleiðis ávallt að hlusta á og virða sjónarmið annarra stjórnarmanna og farsælast er auðvitað ef honum tekst að ná samkomulagi á milli funda til að leiða viðkvæm mál í höfn svo ekki komi til orðaskaks og harðra átaka um þau á stjórnarfundum. - JGH

Við stöndum að hlaðvarpsþættinum Hluthafaspjallinu á Brotkast.is; Jón G. Hauksson og Sigurður Már Jónsson.