Harka að færast í málið - Sundabraut eða Sundagöng? Allir láta sig þetta mál varða

14. október 2025

Það er augljóst að nokkur harka er að færast í umræðurnar um hvort byggja eigi Sundabraut eða Sundagöng - og sitt sýnist hverjum. Sundabrúin kæmi upp við Holtaveg (við stórmarkaðinn Holtagarða) og þar inn á Sæbrautina en Sundagöng kæmu upp á fleiri stöðum og dreifði umferðinni betur. Upphaflega taldi Vegagerðin að hagkvæmasti kostur fyrir Sundabrúna væri að hún kæmi inn í Vogana - en sá kostur varð að engu með byggingu Vogahverfisins.


Ekki fer á milli mála að risavaxin Sundabrú mun breyta ásýndinni við sundin blá og hafa veruleg áhrif á umhverfið í Grafarvogi. Hin nýbyggðu fjölbýlishús í Gufunesi fá brautina nánast í fangið og Hamrahverfið fær brúna við hliðina á sér, samkvæmt tillögum Vegagerðarinnar.

GÖNG TIL VINSTRI. BRÚ TIL HÆGRI.  Á myndinni til vinstri sést hvernig Sundagöng myndu tengjast inn á Sæbraut. Myndin til hægri sýnir hvernig fyrirhuguð Sundabrú kemur inn á Holtaveg.

Vart fer á milli mála að nokkrar deilur verða um það hvorn kostinn eigi að velja. Þegar hefur Gauti Kristmannsson, varaformaður Íbúasamtaka Laugardals, lýst óánægju með Sundabrautina  og hinn mikla umferðarþunga sem fyrirsjáanlega verður á svæðinu liggi brúin yfir Kleppsvík og komi upp við Holtaveginn. (Umferðarflæði mun stóraukast um Holtaveg, Sæbraut, Langholtsveg og Laugarásveg.) Sæbrautin virðist þegar sprungin á miklum annatímum og líklegt að umferðin finni sér nýjan farveg í gegnum íbúðahverfin á þessu svæði.


Vegagerðin virðist hins vegar vera sannfærð um kosti brúar umfram göng - og telur að brú henti Grafarvogsbúum frekar og metur stöðuna svona:


„Við mat á mismunandi útfærslum Sundabrautar kemur fram að brúarlausnin býður upp á skilvirkari tengingar fyrir íbúa Grafarvogs en jarðgangakosturinn. Sundabrúin gerir ráð fyrir styttri og beinni tengingum við hverfið og býður þannig upp á fleiri aðkomuleiðir að Sundabrautinni. Með þessu styttist ferðatími Grafarvogsbúa og dregur úr umferð innan hverfisins, samanborið við jarðgangakostinn.


Þá mun brúarlausnin létta meira á umferð um Gullinbrú en jarðgöng myndu gera, samkvæmt greiningum, og þar af leiðandi fremur létta á umferð á Höfðabakka en jarðgöng.“


HALLSVEGUR EKKI BREIKKAÐUR


Þá segir að ekki sé gert ráð fyrir að breikka Hallsveg í tengslum við Sundabrú þar sem ekki sé fyrirséð að umferð úr öðrum hverfum leiti í gegnum Grafarvog til að komast yfir brúna. Þvert á móti sé gert ráð fyrir að tilfærsla umferðar Grafarvogsbúa yfir á Sundabraut skapi aukið rými á Gullinbrú, Höfðabakka og í Ártúnsbrekku fyrir aðra umferð.


„Að lokum býður brúarlausnin upp á þann mikilvæga framtíðarmöguleika að þróa Hallsveg sem samgönguás með fjölbreyttum ferðamátum, þar á meðal almenningssamgöngum, hjólastígum og gangstígum. Slík þróun eykur valmöguleika íbúa Grafarvogs til að ferðast á hagkvæman og sjálfbæran hátt til vinnu og tómstunda, í takt við stefnu höfuðborgarsvæðisins um fjölbreyttar og vistvænar samgöngur,“ segir Vegagerðin. - JGH

Svona gæti Sundabrautin litið út séð frá Hamrahverfinu - en brúin mun breyta umhverfinu við sundin blá á afgerandi hátt.