Fasteignir

Eftir Jón G. Hauksson
•
4. júlí 2025
HLUTHAFASPJALLIÐ. VIÐSKIPTI. Pattstaðan á Alþingi vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar um tvöföldun veiðigjalda hefur ekki farið fram hjá neinum og ræddum við Sigurður Már Jónsson þau mál lítillega í nýjasta hlaðvarpsþætti okkar, Hluthafaspjallinu , sem við tókum upp í gær og er að finna á Brotkast.is. Mikil kergja er hlaupin í þingmenn um þinglok og í dag birtust fréttir um að eitthvað sé að þokast í samkomulagsátt í þeim efnum. Það er vel. Sigurður Már Jónsson segir í spjalli okkar að vissulega komi það á óvart að forsætisráðherra hafi ekki stígið fram til þessa og reynt að höggvi á hnútinn fyrst hann telji að í óefni sé komið. „Forsætisráðherra þarf að koma með lausn, hafa myndugleikann og tala beint við leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sérstaklega þegar samtöl á milli þingflokksfomanna ganga ekki upp,“ segir Sigurður Már. STJÓRNARFORMAÐUR Í FYRIRTÆKI Ég benti á að forsætisráðherra - og aðrir ráðherrar - væru ekki bara ráðherrar sinna flokka heldur þyrftu að virða skoðanir allra alþingismanna og tók dæmi af stjórnarformanni - og stjórnarmönnum - í fyrirtæki. Stjórnarformaður er formaður allra hluthafa í fyrirtækinu og þarf að hafa hag þeirra allra í hug við ákvarðanir. Góður stjórnarformaður reynir sömuleiðis ávallt að hlusta á og virða sjónarmið annarra stjórnarmanna og farsælast er auðvitað ef honum tekst að ná samkomulagi á milli funda til að leiða viðkvæm mál í höfn svo ekki komi til orðaskaks og harðra átaka um þau á stjórnarfundum. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
11. febrúar 2025
Hátt á Hamrinum með útsýni yfir Grafarvoginn og í átt að Esjunni. Við erum að tala um Ártúnshöfðann. En fasteignasalan Miklaborg hóf að auglýsa íbúðir í stórhýsinu Eirhöfða 7 á Ártúnshöfða til sölu um miðjan desember sl. Húsið er hluti af nýrri íbúðabyggð á Ártúnshöfða sem verður áberandi á næstu árum þar sem fjöldi nýrra íbúða eiga eftir að rísa í stað iðnaðarhúsnæðis sem mun hverfa hægt og bítandi. Sjá betur hér. Í auglýsingu Miklaborgar segir að Ártúnshöfði sé eitt mest spennandi nýbyggingarsvæði Reykjavíkur, þar sem nútímalegar íbúðir og framúrskarandi staðsetning sameinast. „Fyrsti áfanginn, Hamarinn, býður upp á fjölbreyttar íbúðir sem henta bæði einstaklingum og fjölskyldum. Ekki skemmir fyrir að útsýnið er með því besta sem hverfi innan Reykjavíkur býður upp á með fallegri sýn yfir borgina og sólarlag í vestur. Hér er allt innan seilingar – fallegar gönguleiðir, góð þjónusta og frábær tenging við borgina. Hverfið sameinar þægindi og lífsgæði og verður fljótt eitt eftirsóttasta svæði borgarinnar,“ segir meðal annars í auglýsingu Miklatorgs á Facebook. Þess má geta að útsýnið til norðurs er auðvitað yfir Grafarvoginn og í átt að Esjunni.