Hæstiréttur og Alþingi við útgerðirnar: Þið eigið að eignfæra veiðiheimildirnar

16. apríl 2025

VIÐSKIPTI Guðmundur Kristjánsson  forstjóri Brims og nýr formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, segir í nýjasta  HLUTHAFASPJALLINU, hlaðvarpsþætti okkar Sigurðar Más Jónssonar á Brotkast.is, að þjóðin og ríkið séu ekki það sama þótt margir líti svo á; fólk og fyrirtæki séu hluti af þjóðinni en ekki ríkinu og ríkið sinni ákveðnum verkefnum fyrir þjóðina. 


Guðmundur segir að samkvæmt dómi Hæstaréttar í Hrannarmálinu frá1993 og lögum frá Alþingi 1997 séu veiðiheimildir ekki eign ríkisins heldur sjávarútvegsfyrirtækjanna sem hafi stækkað og þjappast saman með því að kaupa veiðiheimildir. Veiðiheimildirnar séu helsta eign þeirra og metnar á 500 milljarða króna. „Veiðigjöldin eru ekkert annað en skattur,“ segir Guðmundur og byrjar spjallið á smá sagnfræði.

Núverandi ríkisstjórn talar ekki um hvernig eigi að hagræða og endurskipuleggja eins og gert er hjá einkafyrirtækjum heldur segir við þjóðina sem hún vinnur fyrir: Við ætlum bara að hækka skatta á ykkur. 

HIÐ OPINBERA SELDI KVÓTANN

„Árið 1984, þegar kvótinn var settur á, átti ríkið t.d. Þormóð ramma og það voru þónokkrar bæjarútgerðir. Svo var ákveðið að selja þessar útgerðir, út úr ríkinu og út úr sveitarfélögunum. Hverjir kaupa? Það eru einstaklingar og fyrirtæki í þjóðfélaginu, þjóðin.“


ÁRIÐ 1991: FRAMSALIÐ OG VERÐGILDI KOM Á KVÓTANN

„Árið 1991 kom framsalið og um leið kom verðgildi á svokallaðan kvóta.“


HÆSTIRÉTTUR 1993: ÞIÐ ÞURFIÐ AÐ EIGNFÆRA VEIÐIRÉTTINN

„Í upphafi afskrifuðum við kvótakaupin, gjaldfærðum þau. En svo kom ríkisskattstjóri árið 1993 og vann mál gegn okkur í Hæstarétti, svokallað Hrannarmál, þar sem okkur var gert að eignfæra veiðiréttinn, svokallaðan kvóta, en máttum afskrifa hann á fimm árum þar sem talin var svolítil óvissa um kvótakerfið.“


ALÞINGI 1997: EKKI MÁ AFSKRIFA VEIÐIRÉTTINN

„Alþingi setti svo lög árið 1997 lög um að það mætti aldrei afskrifa kvóta; svonefndan veiðirétt sem er núna í bókhaldi allra sjávarútvegsfyrirtækjanna um 500 milljarðar króna.“


ALÞINGI 1997: VEIÐIRÉTTURINN EIGN FYRIRTÆKJANNA

„En þegar Alþingi tók þessa ákvörðun 1997 þá sagði það að ríkið ætti ekki veiðiréttinn heldur væri hann eign fyrirtækjanna. Það er nefnilega gríðarlegur munur á ríkinu eða þjóðinni.“


2010: RÍKIÐ LAGÐI AUÐLEGÐARSKATT Á VEIÐIRÉTTINN SEM EIGN

„Svo kom auðlegðarskattur árið 2010 til 2013 en þá þurftu einstaklingar í þjóðfélaginu að greiða eignarskatt af þessum svonefnda veiðirétti – hvers vegna ef hann var ekki þeirra? Núna er veiðirétturinn langstærsta eign hinna þriggja skráðu sjávarútvegsfyrirtækja í Kauphöllinni. Ef við hefðum ekki þjappað kvótanum saman væri engin arðsemi í sjávarútvegi.“


RÍKIÐ ER HLUTAFÉLAG SEM BIÐUR HLUTHAFANNA BARA UM MEIRI PENINGA

„Á fjögurra ára fresti er kosið og við heyrum þá alltaf hjá stjórnarandstöðunni að ríkið sé illa rekið og allt sé í steik. En ef við ímyndum okkur að ríkið sé hlutafélag í eigu þjóðarinnar; alveg eins og hlutafélag er í eigu hluthafanna, þá hagræðir það ekki heldur biður eigendur sína um meira hlutafé.“


FORSTJÓRI Í HLUTAFÉLAGI: ÉG VIL MEIRA HLUTAFÉ FRÁ YKKUR

„Gefum okkur að ég væri að taka við Brim núna og hluthafarnir væru búnir að vera mjög óánægðir með reksturinn og kosið nýja stjórn og ég ráðinn forstjóri. Í staðinn fyrir að taka til í rekstrinum segði ég bara við hluthafana: Ég ætla að fá meira hlutafé frá ykkur því mig vantar meiri pening inn í reksturinn.“


RÍKIÐ MEÐ 1.550 MILLJARÐA Í TEKJUR – SAMT TAP

„Sama er með ríkið núna, það sefnir á tekjur upp 1.550 milljarða (bara A-hlutinn) og vantar meira fé í kassann því útgjöldin verða um 1.570 milljarðar króna. Núverandi ríkisstjórn talar ekki um hvernig eigi að hagræða og endurskipuleggja eins og gert er hjá einkafyrirtækjum heldur segir við þjóðina sem hún vinnur fyrir: Við ætlum bara að hækka skatta á ykkur. Ríkið hefur komist upp með það síðustu tíu, tuttugu árin að eyða um efni fram.“

„Og það eru bara karlar sem virðast eiga sjávarútvegsfyrirtækin; ekki lífeyrissjóðir, ekki tryggingafélög, sjóðir eða þúsundir einstaklinga í Kauphöllinni; það eru bara gamlir, miðaldra karlar.“ 

ERUÐ ÞIÐ RÍKIR MIÐALDRA KARLAR SEM VAÐIÐ Í PENINGUM?

Sp. En Guðmundur, það er búið að stilla þessu einhvern veginn þannig upp að fólk lítur svo á útgerðirnar séu ríkir karlar sem vaði í peningum og geti borgað meira? Stjórnmálamennirnir í ríkisstjórninni kynna málið altént með þeim hætti?


„Hluti af þessu er nú að blaðamenn kaupa alltaf allt hrátt. Ég tók mikla rimmu árið 1990 þegar það var sett í lögin um stjórn fiskveiða að fiskimiðin væru sameign þjóðarinnar án þess að skilagreina hvað það þýddi. Fiskimiðin eru ekki veiðirétturinn. Ef þú átt veiðirétt þá áttu ekki fiskinn í sjónum. Ef þú ert með löglegt veiðileyfi til að veiða fiskinn og veiðir hann þá ferðu að búa til verðmæti út úr auðlindinni. Það verða engin verðmæti til fyrr en búið er að veiða fiskinn.


RÍKIÐ BÓKFÆRIR VEIÐIGJÖLDIN SEM SÉRTEKJUR AF EIGNUM

„Ég fór í ríkisreikninginn og vitið þið hvar veiðigjöld eru bókuð í tekjureikningi ríkisins? Þau eru bókuð sem sem sértekjur af eignum! Eins og að veiðirétturinn sé séreign ríkisins. En ríkið á ekki veiðiréttinn! Ég hef það á tilfinningunni að það sé búið að plata og rugla alllan almenning um að ríkið sé það sama og þjóðin.“


GUÐMUNDUR - ER ÞETTA AUÐLINDARENTA?

Sp. En Guðmundur – það virðist búið að sannfæra almenning um að veiðigjöldin séu auðlindarenta?

„Já, en ef ríkið telur sig eiga veiðiréttinn sem er helsta eign sjávarútvegsfyrirtækjanna hvers vegna borgaði ríkið þá ekki auðlegðarskattinn 2010 til 2013 í stað þess að leggja skattinn á einstaklingana sem eiga í fyrirtækjunum. Hver vegna tók Skatturinn okkur þá fyrir í Hæstarétti árið 1993 og sagði að sjávarútvegsfyrirtækin ættu veiðiréttinn og yrðu að eignfæra hann?“


ENGUM DETTUR Í HUG AÐ ÞJÓÐIN EIGI BLÁA LÓNIÐ

„Sigurður Líndal prófessor sagði: Auðlindin er hugtak yfir stóran hlut. Til að nýta auðlindir þarf að hafa fyrir því. Ef við tökum heita vatnið sem dæmi; það þarf að bora eftir því; það þarf að eyða pening til að ná í vatnið.


Ég segi oft með Bláa Lónið, það frábæra fyrirtæki, að það er annar aðili, Hitaveita Suðurnesja, sem boraði niður og tók áhættuna af því. Bláa Lónið keypti vatn, sem var ekki mikið nýtt og bjó til mikil verðmæti út frá þessari auðlind – en það er enginn að koma og segja að þjóðin eigi Bláa Lónið! Bláa Lónið er hluti af Íslandi. Ísland er byggt upp af fólki og fyrirtækjum og við eigum saman fyrirtæki sem heitir ríkið sem tekur að sér að sinna ákveðnum verkefnum fyrir þjóðina.“


MINNI TEKJUR ÞEGAR UPP VERÐUR STAÐIÐ?

Sp. En hvað um með útreikninga og afleiðingar af frumvarpinu um tvöföldun veiðigalda?

„Það vantar alla útreikninga og áhrif á sjávarútvegsfyrirtækin og samfélagið? Hvaða áhrif hefur þetta á tæknifyrirtækin sem þjónusta sjávarvarútveginn? Hvaða áhrif hefur þetta á sveitarfélögin? Og er vit í því að skattleggja frumatvinnugreinar – sem búa til störf í öðrum atvinnugreinum - svo mikið að það skaði hagsmuni þjóðarinnar í heild þegar upp er staðið  því þetta er allt saman ein virðiskeðja.“


„Ef alþingismenn ætla núna að samþykkja gríðarlegar skattahækkanir á eina grein þá geta þeir það alveg, en það hefur miklar afleiðingar. En ráðherrarnir hafa hvorki haft fyrir því að reikna út né skýra út hvað þessi viðtóbarskattlagning þýðir fyrir samfélagið sem heild, þjóðina. Kannski þýðir hún tekjuminnkun eftir eitt til tvö ár?“


BORGIÐ ÞIÐ YKKUR MEIRI ARÐ EN AÐRIR?

Sp. Eruð þið að borga ykkur meiri arð í sjávarútvegsfyrirtækjunum en aðrar atvinnureinar?

„Við virðumst vera einu fyrirtækin á Íslandi sem borgum arð, miðað við umtal. Og það eru bara karlar sem virðast eiga sjávarútvegsfyrirtækin; ekki lífeyrissjóðir, ekki tryggingafélög, sjóðir eða þúsundir einstaklinga í Kauphöllinni; það eru bara gamlir, miðaldra karlar. En til að svara spurninginni þá hefur Jakobsen Capital reiknað þetta út og það kemur í ljós að arðgreiðslur í sjávarútvegi eru sambærilegar við annan iðnað á Íslandi.“   - JGH

 

 

Hér má sjá allt viðtalið við Guðmund.

Hér má sjá hvar hann ræðir loðnubrest, aukinn fjölda hvala í sjónum og Hafrannsóknarstofnun.